Skólalok 2016

Utskrift.16Í dag, þriðjudaginn 7. júní, voru nemendur útskrifaðir og skólaárinu þar með lokið með samkomu í Fossvogskirkju. Að þessu sinni fór útskriftin fram í tvennu lagi, yngsta stig og miðstig fyrir hádegi og elstu nemendurnir kl. 14:00. Þeir sem endanlega útskrifast þetta vor og kveðja skólann eru 14 nemendur, sem hefja nám á framhaldsskólastigi nk. haust. Skólastjóri, Árni Einarsson, sleit formlega skólaárinu, en hann talaði einkum til 10. bekkinga, þakkaði samstarfið og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni. Árni minntist sérstaklega á Thelmu Ósk Þórisdóttur, sem lést í vetur, en hún hafði verið frá upphafi skólagöngu nemandi í þessum bekk, sem útskrifast núna. Hennar væri sárt saknað enda mikill gleðigjafi. Jóhann Stígur Eiríksson flutti ræðu fyrir hönd nemenda og þá söng Guðbjörg Sól Sigfúsdóttir einsöng. Loks fengu nemendur umsagnir í hendur, bekkjarmynd og minnislykil með myndefni frá frækinni för þeirra til Vestmannaeyja fyrir stuttu. Loks gengu allir út í góða veðrið í Klettaskóla, þar sem þeirra beið veisluborð, hlaðið dýrindis krásum!  Á meðfylgjandi mynd má sjá föngulegan hóp útskriftarnema, sem kveður nú skólann sinn og heldur á vit nýrra ævintýra!  Í myndasafni má sjá fleiri myndir frá útskriftinni.  Takk fyrir samveruna og gangi ykkur vel! 

 

Vorhátíðin 2016

vorhatid.16Vorhátíð skólans var haldin í morgun, mánudag 6. júní, í fegursta veðri. Að vanda var margt um dýrðir, leikir, söngur og dans, veitt voru verðlaun fyrir íþróttaafrek og nemendur kvaddir með stórveislu, pylsum og pulsum með meðlæti. Tókst hátíðin afar vel, foreldrar og fleiri aðstandendur kíktu í heimsókn og nutu samverunnar undir tónlist, sem leikin var milli atriða. Myndir frá skemmtilegum morgni fá finna í myndaalbúmi.

Íþróttahátíðin 2016

ithrottahatid.2016Íþróttahátíðin 2016 fór fram í fimleikahúsi Fylkis í Norðlingaholti í morgun, föstdag 3. júní. Að vanda var mikið fjör, enda rými nægt og svigrúm til alls kyns leikja, sem ekki eru venjulega í boði í þrengslum Klettaskóla. Nemendur sem starfsmenn hömuðust sem mest þeir máttu, enda hækkaði hitastig í húsinu um nokkrar gráður þennan morguninn! Úti beið þeirra svo einn fallegasti dagur ársins, sól og hiti, sem bætti um betur í rjóðar kinnar! Skemmtilegur morgunn, eins og myndir í myndasafni bera vitni um.

Til hamingju, Jóhann Stígur!

verdlaun.16Skóla- og frístundaráð veitti í gær, mánudaginn 23. maí, svokölluð nemendaverðlaun þeim nemendum í grunnskólum Reykjavíkur, sem staðið hafa sig framúrskarandi vel í námi og/ eða félagsstarfi. Jóhann Stígur Eiríksson, nemandi í 10. bekk, var tilnefndur til verðlaunanna úr Klettaskóla og var hann á meðal annarra verðlaunahafa, sem fékk bók og viðurkenningarskjal af þessu tilefni. Jóhann Stígur er vel að þessari tilnefningu kominn, en hann hefur stundað nám sitt af kostgæfni og verið góð fyrirmynd sem félagi annarra nemenda í skólanum. Jóhanni er óskað innilega til hamingju með verðlaunin, en hann lýkur námi við skólann í vor. Jóhann Stígur er í fremstu röð, lengst til hægri í grænni peysu á meðfylgjandi mynd frá verðlaunafhendingunni í gær.

 

Vegleg gjöf frá "Umhyggju"

Umhyggja.16Fulltrúi frá félaginu Umhyggju kom í skólann í dag, mánudag, 23. maí, með myndarlega gjöf sem er fjárframlag uppá 400 þúsund krónur til tækjakaupa eða e-s annars, sem kemur nemendum Klettaskóla til góða. Umhyggja er félag „sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra“, eins og segir á heimasíðu félagsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá skólastjórnendur ásamt nokkrum nemendum taka við þessari höfðinglegu gjöf frá talsmanni Umhyggju, en Klettaskóli mun vera einn af 10 skólum, sem félagið styrkir nú með þessum hætti. Fær það bestu kveðjur úr skólanum og þakkir fyrir þá velvild, sem nemendum hans er sýnd.