Skip to content

Skólaslit

Skólaslit voru í Klettaskóla í dag, föstudaginn 5. júní.  Að þessu sinni voru þau óhefðbundin, bekkjardeildir mættu á mismunandi tímum, nemendur gengu til sinna stofa og luku þar skólaárinu með starfsmönnum viðkomandi deilda.  Aðeins útskriftarnemendur í 10. bekk mættu í hátíðarsal eftir hádegi, þar sem þeir voru kvaddir samkvæmt venju með hátíðlegum hætti.  Sungin voru saman nokkur lög undir stjórn Ólafs B. Ólafssonar, fyrrverandi tónmenntakennara skólans og dóttur hans, Ingibjargar, núverandi kennara og svo hélt Úlfhildur G. Einarsdóttir kveðjuræðu fyrir hönd útskriftarnema.  Skólastjóri flutti nokkur lokaorð en í máli hans kom fram, að útskriftarnemendur frá skólanum voru nú 7 og hafa sótt nám í skólann á miklum breytingatímum í sögu hans. Byggingaframkvæmdir hafa átt sér stað til margra ára og skólavistinni lauk svo með afdrifaríkum hætti, þegar kórónuveiran lamaði skólastarf sem annað í samfélaginu.  Þurftu nemendur m.a. að hætta við útskriftarferð til Danmerkur og sýndu þann myndarskap að gefa hluta af söfnunarfé til þess að byggja vatnsbrunna í Afríku.  Á meðfylgjandi mynd er útskriftarhópurinn og um leið og þakkað er fyrir margra ára samfylgd er hópnum óskað hins besta í framtíðinni.