Skip to content

Skólaárið 2021- 2022 hafið

Klettaskóli var settur í dag, 23. ágúst 2021, í hátíðarsal skólans. Var nemendum skipt í hópa eftir skólastigum vegna veirufaraldurs, og mætti fyrsti hópurinn kl. 9:00 árdegis og sá seinasti kl. 13:00. Skólastýra, Arnheiður Helgadóttir, bauð nemendur og aðstandendur þeirra velkomna, rifjaði upp óhefðbundið skólastarf sl. vetur og hve vel hefði tekist að mestu leyti að fylgja stundatöflu. Áherslan á komandi vetri yrði sú sama, að halda skólastarfi gangandi og virða sóttvarnir með öryggi nemenda og starfsfólks að leiðarljósi. Skráðir nemendur væru 123 í vetur, búið væri að ráða í flestar stöður en vantaði tilfinnanlega stuðningsfulltrúa. Þá fór skólastýra nokkrum orðum um undirbúning starfsmanna sl. viku, námskeið, sem haldin voru, og áframhaldandi þróunarvinnu og faglegt starf á komandi vetri. Þá minntist hún á bólusetningu fyrir þá nemendur sem óskað væri eftir, í þessari viku í skólanum, kynnti starfsfólk bekkja og setti loks skólann fyrir skólaárið 2021- 2022.