Klettaskóli 10 ára

Þess var minnst í dag, föstudag 5. nóvember, að 10 ár eru liðin frá því að Klettaskóli tók til starfa. Skólinn varð til vegna samruna tveggja sérskóla, Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla, og voru húsakynni þess síðarnefnda valin til frambúðar fyrir hinn nýja skóla. Á þessum 10 árum hefur húsnæði skólans gjörbreyst, gamla húsnæðið allt endurgert og nýbygging reist. Mikið rask til nokkurra ára fylgdi framkvæmdum á sínum tíma. Í dag er skólahald með miklum blóma og skólinn eftirsóttur af starfsfólki sem nemendum.
Í tilefni þessara tímamóta hefur afmælisandi ríkt innan veggja skólans undanfarna daga. Bekkirnir hafa komið saman í hátíðarsal með alls kyns skemmtiefni, og sérstök afmælisdagskrá var hjá list- og verkmenntakennurum. Hápunkturinn var í dag, þegar fulltrúi Landverndar afhenti skólanum grænfánann með borgarstjóra viðstaddan, nemendur og starfsmenn gæddu sér á afmæliköku, tónlist var leikin, dans stiginn í íþróttasal, Friðrik Dór tónlistarmaður skemmti með söng og loks fengu allir pítsu um hádegisbil. Meðfylgjandi mynd var tekin í morgunsárið, þegar grænfáninn var dreginn að húni.