Lög foreldrafélags Klettaskóla

1. gr.

Nafnið er foreldrafélag Klettaskóla, skammstafað FK. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. gr.

Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunamálum nemenda í Klettaskóla, og stuðla að góðri samvinnu við önnur foreldrafélög.

3. gr.

Félagsmenn geta orðið, forráðamenn nemenda, aðstandendur, kennarar og starfsmenn í Klettaskóla, ásamt þeim sem styðja tilgang FK.

4. gr.

Árgjald skal vera í samræmi við ákvörðun aðalfundar FK hverju sinni.

5. gr.  

Reikningsár félagsins skal vera frá 1. janúar til og með 31. desember ár hvert.

6. gr.

Aðalfund skal halda árlega eigi síðar en í september lok. Skylt er að senda út fundarboð ásamt dagskrá með minnst viku fyrirvara. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum, en standi atkvæði jöfn, telst tillaga fallin.

7. gr.  

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1.   Skýrsla stjórnar

2.   Skýrsla gjaldkera.

3.   Umræður um skýrslur stjórnar og gjaldkera.

4.   Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

5.   Kosning formanns til tveggja ára.

6.   Kosning fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára og tveggja varamanna til eins árs.

7.   Kosning tveggja félagskjörna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

8.   Árgjald.

9.   Lagabreytingar.

10. Önnur mál.

8. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda skal lagabreytinga getið í fundarboði. Tillögur til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Slíkar tillögur taka því aðeins gildi, að þær hljóti samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

9. gr.

Stjórn félagsins skipa 5 aðalmenn og tveir varamenn og fer hún með æðsta vald milli aðalfunda og ber ábyrgð gerða sinna gagnvart þeim. Stjórnin skiptir með sér verkum og getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og getur skipað sérstaka nefnd í sama tilgangi.

10. gr.

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef fjórir stjórnarmenn hið fæsta sækja fund. Varamenn skulu ætíð boðaðir. Varamenn hafa atkvæðarétt, ef aðalmenn forfallast. Afl atkvæðaræður úrslitum á stjórnarfundum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

11. gr.

Stefnt skal að því, að stjórnin boði til eigi færri en tveggja félagsfunda á ári. Komi fram skrifleg ósk um fund frá 15 félagsmönnum eða fleiri, ber stjórninni að verða við henni innan 14 daga frá móttöku bréfsins.

12. gr.

Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið þarf til þess samþykki tveggja funda og skal annar þeirra vera aðalfundur. Á báðum fundum þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja tillöguna. Hætti félagið störfum skal Klettaskóla falin umsjón eigna. Verði stofnað innan fimm ára nýtt félag, sem ótvírætt telst arftaki FK fær það eignirnar, en að öðrum kosti fær Klettaskóli þær til frjálsrar ráðstöfunar.

Starf og stefna.

Markmið félagsins er að styðja og styrkja þá nemendur sem stunda eða hafa stundað nám við Klettaskóla. Markmiði sínu hyggst félagið m.a. ná á eftirfarandi hátt:  

1. Með því að vinna að því, að nemendur Klettaskóla séu jafnan búnar sem bestar kennslu- og uppeldisaðstæður,og með því að styðja og styrkja starfsemi Klettaskóla.

2. Með því að stuðla að fræðslu meðal almennings um stöðu nemenda skólans og starfsemi hans.

3. Með því að styrkja kennara til framhaldsnáms í kennslu þroskaheftra.

4. Með því að aðstoða nemendur við val á lífsstarfi.

5. Með því að auka kynni og samstarf foreldra skólans.

6. Með því að aðstoða forráðamenn við að ná rétti sínum.

 

Reykjavík 16 september 2011

________________________ _________________________ _________________________

Ragnheiður Sigmarsdóttir     Sigga Stína    Erla Gunnarsdóttir