Skip to content

Þátttökubekkur Klettaskóla í almennum grunnskóla

Þátttökubekkur er sérhæft námsúrræði undir stjórn Klettaskóla en með aðsetur í almennum grunnskóla. Haustið 2013 tók fyrsti þátttökubekkurinn til starfa í Árbæjarskóla. Nemendur njóta faglegrar þjónustu og þekkingar sérskólans en taka jafnframt þátt í starfi og samfélagi Árbæjarskóla eftir því sem tilefni gefst til.  Um inntöku í þátttökubekk gilda sömu reglur um  innritun og í Klettaskóla.

Í skýrslu starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar um nám og kennslu nemenda með þroskahömlun og sameiningu Safamýrar- og Öskjuhlíðarskóla frá árinu 2011 var sett fram tillaga um stofnun þátttökubekkja við nýjan sameinaðan sérskóla í stað hefðbundinna sérhæfðra sérdeilda. Í stefnu skóla- og frístundaráðs um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur, sem samþykkt var í nóvember 2012 var síðan lagt til að stofnað yrði til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla. Fyrsti þátttökubekkurinn tók til starfa haustið 2013, hinir með tveggja ára millibili þannig að allir bekkirnir verða farnir að starfa haustið 2019.

Þátttökubekkur er sérhæft úrræði, undir stjórn Klettaskóla, með aðsetur í almennum grunnskóla. Starfsfólkið er ráðið við Klettaskóla og nemendur eru skráðir í Klettaskóla. Þátttökubekkur er þannig sérhæft námstilboð í almennu skólaumhverfi þar sem nemendurnir njóta faglegrar þjónustu og þekkingar sérskólans og jafnframt náms og skólastarfs í almennu skólaumhverfi. Á sama hátt hefur almenni skólinn aðgang að sérþekkingu og faglegri þjónustu sérskólans. Gagnkvæmt samstarf og ávinningur er hafður að leiðarljósi þannig að þátttökubekkur starfar sem brú milli almenna skólans og sérskólans.

Fagráð um inntöku í Klettaskóla fjallar um umsóknir í þátttökubekk og leggur tillögur sínar um afgreiðslu þeirra fyrir skólastjóra. Sömu reglur gilda um innritun og útskrift nemenda úr þátttökubekk og gilda um Klettaskóla. Inntaka í þátttökubekk miðast þannig m.a. alltaf við að aðstæður og möguleikar sem felast í þátttökubekk séu líkleg til að stuðla að framförum hjá nemandanum námslega, félagslega og í almennum þroska. Nemendaverndarráð Klettaskóla fer með málefni nemenda í þátttökubekk.

Til að byrja með er gert ráð fyrir 5 til 6 nemendum í þátttökubekk en möguleiki verði á að fjölga nemendum í 10 á næstu árum. Huga þarf að aldurs- og kynjasamsetningu hópsins en mælt er með að í byrjun verði teknir inn nemendur á miðstigi svo aldursdreifing hópsins verði ekki of mikil.

Nám í þátttökubekk er alltaf einstaklingsmiðað og sveigjanlegt og getur tenging nemenda við almennt skólastarf verið margs konar, bæði námslega og félagslega. Nemendur í almenna skólanum geta tengst námi, starfi og nemendum í þátttökubekk bæði námslega og félagslega. Gerðar eru einstaklingsnámskrár fyrir alla nemendur þátttökubekkjar þar sem m.a. kemur fram tenging viðkomandi nemanda út í almennt skólastarf námslega og félagslega.